Saga listmeðferðar
Í aldanna rás hefur myndsköpun gegnt margskonar hlutverkum og eitt þeirra verið þáttur í fyrirbyggjandi heilsuvernd og geðhjálp. Sögulega hefur myndsköpun tengst þróun geðlæknisvísinda og sálarfræði á Vesturlöndum. Á seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar tuttugustu átti sér stað mikil þróun á sviðum vísinda, lista og menningar sem hafði áhrif á þróun listmeðferðar sem fræði- og starfsgreinar. Má nefna sem dæmi mannúðlegri meðferð á geðsjúklingum. Ýmsir evrópskir geðlæknar veltu því fyrir sér hvernig hægt væri að styðjast við myndverk sjúklinga sinna til sjúkdómsgreiningar og höfðu trú á að sköpunarferlið gæti jafnvel hjálpað sjúklingum til heilsu. Gefnar voru út bækur og greinar eftir evrópska lækna um myndverk sjúklinga.
Kenningar Sigmund Freud og Carl G. Jung höfðu mikil áhrif á fræðin í byrjun en síðar komu til þroskaþróunarkenningar eins og kenningar Eric Ericson, D.W.Winnicott, John Bowlby, Melanine Klein og fleiri. Fræðimenn eins og Rodha Kellogg og Victor Lowenfeld rannsökuðu hvernig þroskaþróun birtist í barnateikningum. Upp úr 1945 fóru svo að birtast skrif um kenningar sem byggðust á sérstöðu listmeðferðar sem meðferðarúrræðis. Má þar nefna nöfnin Adrian Hill, Irene Champernowne, Margaret Naumburg, Edith Kramer, Myra Levic, Rudolf Arnheim, og Arthur Robbins.
Nú í lok þessarar aldar hafa nýlegar rannsóknir á starfssemi heilans veitt enn betri þekkingu og skilning á minninu, hvernig það geymir upplýsingar í myndrænu formi og einnig á svokölluðu tilfinningaminni sem rökhugsun nær ekki yfir. Einnig hefur orðið til betri skilningur á áhrifum áfalla á minnið. Myndsköpun hefur oft hjálpað til að nálgast tilfinningar tengdar áföllum sem geymast í minninu og hafa áfram áhrif á líðan og hegðun einstaklingsins. Í þessu samhengi skal bent á að listmeðferðarfræðingar eru víða erlendis fengnir til að vinna við áfallahjálp t.d. á stríðshrjáðum svæðum eða þar sem hafa orðið náttúruhamfarir.
Listmeðferð á Íslandi
Ennfremur má geta þess að nokkrar greinar sem byggja á ofangreindri starfssemi og fjalla um listmeðferð fyrir börn á sjúkrahúsum hafa verið birtar í alþjóðlegum barnalæknatímaritum. Erindi um sama efni hafa verið flutt á alþjóðlegum barnalæknaþingum víða um heim.
Á barna- og unglingageðdeild hefur verið starfandi listmeðferðarfræðingur síðastliðin þrjátíu ár og hefur sérhæft sig í starfi með börnum og unglingum með greiningu ADHD og ADD.
Þó listmeðferðarfræðingar séu enn fámenn stétt, þá eru þeir starfandi víða innan heilbrigðis-, félags- og menntakerfisins hér á landi. Innan skólakerfisins, bæði í grunnskólum og sérskólum, hefur verið unnið með börnum og unglingum sem eiga við tilfinninga-, hegðunar- og félagslega erfiðleika að stríða. Listmeðferðarfræðingar starfa meðal annars á Hrafnistu með öldruðum, í átröskunarteymi á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og í Foreldrahúsi. Einnig reka listmeðferðarfræðingar einkastofur og vísa þangað meðal annarra barnalæknar, geðlæknar, sálfræðingar, barnaverndarnefndir og félagsmálayfirvöld.
Nýverið var framkvæmd rannsókn á listmeðferð í grunnskóla á Íslandi þar sem þróuð var listmeðferðaraðferð fyrir börn sem hafa orðið fyrir áföllum og eiga við námsörðugleika að stríða. Fræðigreinar og bókakaflar sem byggja á ofangreindum rannsóknum hafa verið birtar hérlendis og erlendis í ritrýndum ritum. Erindi um sama efni hafa einnig verið flutt á ýmsum ráðstefnum innanlands sem utan.