Hvað er listmeðferð?

Listmeðferð er meðferðarúrræði sem byggir á sálfræðilegum kenningum og er myndræn tjáning notuð markvisst til að vinna úr reynslu og upplifun einstaklingsins. Í listmeðferð er einstaklingnum veitt tækifæri til að tjá tilfinningar sínar og hugarheim með litum, leir og öðru myndlistarefni í öruggu umhverfi undir umsjón listmeðferðarfræðings.

Sú myndræna nálgun sem notuð er veitir oft aðgang að djúpstæðum þáttum í tilfinningalífi einstaklingsins sem talað mál megnar oft ekki að gera. Myndsköpunarferlið og sambandið við listmeðferðarfræðinginn hjálpar einstaklingnum að tjá ýmsar tilfinningar og hugsanir sem hann hefur ekki náð að koma orðum að og þannig aukið sjálfskilning og sjálfsmeðvitund.

Listmeðferð er runnin frá stofni sállækninga (psychodynamic) og kenninga um listsköpunarferlið. Í listmeðferð er lögð áhersla á sköpun sem er öllum eiginleg og er leitast er við að efla hana. Í vinnuferlinu er ekkert rétt eða rangt og er því engin þörf á færni í myndsköpun. Takmarkið er ekki að gera litaverk eða “fallega mynd” heldur er sköpunarferlið aðal atriðið. 

Skjólstæðingar listmeðferðarfræðinga eru á öllum aldri; einstaklingar sem stríða við m.a. geðræn vandamál, hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum eða eru að glíma við sjúkdóma eða fatlanir.

Munurinn á listmeðferð og myndlistarkennslu

Starf myndlistarkennarans miðast við það sem lagt er fyrir í námskrá. Hann kennir um hina formlægu/hlutlægu og fagurfræðilegu uppbyggingu myndmálsins. Einnig kennir hann um myndlistarefnin, tækniaðferðir, notkun áhalda og efna, strauma og stefnur í listasögu, listgagnrýni og undirbýr nemendur sem listnjótendur.

Listmeðferðarfræðingurinn leggur hins vegar meira upp úr vinnuferlinu sjálfu og sambandi sínu við skjólstæðinginn. Hann veitir athygli tilfinningalegum viðbrögðum, hegðun, vinnulagi, hvernig skjólstæðingurinn upplifir verk sitt, innihaldi verksins og hvað skjólstæðingurinn hefur um myndverkið að segja.

Listmeðferðarfræðingurinn skoðar persónuleg einkenni og þroskaþætti sem birtast í listaverkinu og hjálpar viðkomandi að vinna með þær tilfinningar sem koma upp á yfirborðið.

Munurinn á listmeðferð og iðju/þroskaþjálfun

Fleiri stéttir nota myndlist sem leið í vinnu með eintaklinga og má þar nefna þroska- og iðjuþjálfa, en þar er áherslan á þjálfunarþáttinn, þ.e. að nota þær leiðir sem myndlistin býður upp á sem þjálfunartæki hvað varðar m.a. fínhreyfingar, skynjun og sjálfseflingu. Myndlistin getur einnig verið notuð sem leið til að efla félagsfærni og tómstundaiðkun.